Beint í efni
Nýskráning
Mínar síður
Loka
Innanhúss
Skip og stálvirki
Utanhúss
Viðarvörn

Saga Málningar

Málning hf var stofnað hinn 16. janúar 1953. Að stofnuninni stóðu fjölmargir aðilar, en þar voru fremst í flokki afkomendur Péturs Guðmundssonar í Málaranum.

Fyrsta aðsetur félagsins var gamalt skólahúsnæði við Kársnesbraut 32 í Kópavogi. Með tímanum var húsnæðið aðlagað að rekstrinum og stækkað með viðbyggingum. Árið 1981 var söludeild og lager flutt upp á Lyngháls 2, en framleiðslan og önnur starfssemi hélt áfram á gamla staðnum.

Þann 13. júlí 1987 dundi mikið reiðarslag yfir starfsemi Málningar þegar byggingin á Kársnesbrautinni gjöreyðilagðist í eldsvoða. Hér var um mikið tilfinningalegt og fjárhagslegt tjón að ræða. Hráefni og vörur fyrir tugimilljóna urðu eldinum að bráð og húsnæðið upp á 2000 fm var rústir einar. En með miklu snarræði tókst að verja helstu framleiðsluvélarnar og gera þær tilbúnar til notkunar. Með samhentu átaki starfsfólks og eigenda félagsins tókst að hefja framleiðslu aðeins nokkrum dögum eftir brunann fyrst á Lynghálsi 2 en frá október 1987 á Funahöfða 9.

Þann 19. október 1998 flutti lager og söludeild starfssemi sína í glæsilegt þriggja hæða stórhýsi við Dalveg 18 í Kópavogi. Skömmu seinna eða 1. janúar 1999 flutti önnur starfssemi í húsið og var þá loksins allt komið undir einn hatt hjá Málningu hf. Húsið er hannað af Ingimundi Sveinssyni arkitekt.

Fljótlega eftir stofnun félagsins var farið að framleiða og markaðssetja Spred Satin, sem er fyrsta vatnsþynnta málningin sem sett er á íslenskan markað. Hér var um mikið framfaraspor fyrir íslenska neytendur, sem þekktu ekkert annað enn mengandi olíumálningar á þessum tíma. Framleiðslu á Spred Satini lauk árið 1973. Við af henni tóku hinar fjölbreyttu Kópalvörur, sem enn í dag eru stór hluti af vöruúrvali fyrirtækisins. Málning hf hefur frá fyrstu tíð laggt mikla áherslu á vöruþróun og rannsóknir. Áhersla hefur verið lögð á gott samstarf við erlenda framleiðendur eins og Jotun í Noregi, Loba í Þýskalandi, Becker Acroma í Noregi o.fl. Málning hf er eitt málningarfyrirtækja á Íslandi sem tekur virkan þátt í sameiginlegum rannsóknarverkefnum með rannsóknarstofnunum innlendum, sem erlendum.

Innlend vöruþróun fyrir hinar séríslensku aðstæður er samt grunnurinn að flestum vörum félagsins. Má þar nefna utanhússmálninguna Steinvara 2000, viðarvarnarfjölskylduna Kjörvara og þakmálningarnar Þol og Akrýl Þol, sem er þynnanleg með vatni og síðasta afsprengið Epox 1, sem er vatnsþynnt epoxýlakk. Nánari upplýsingar um þessar og fleiri vörutegundir er að finna annars staðar á heimasíðunni. Málning hf hefur í gegnum tíðina selt nokkuð af málningu til ýmissa landa eins og Englands, Færeyja og Lettlands. Málning hf á í samstarfi við færeyjska fyrirtækið Kveik, sem framleiðir eftir framleiðsluleyfi frá Málningu.

Í byrjun árs 2010 festi Málning hf kaup á stórum hluta reksturs Slippfélagsins í Reykjavík, með þeim kaupum efldist fyrirtækið ennfrekar og er með þeim langstærsta fyrirtækið á Íslandi í málningariðnaði.

Málning hf hefur ávallt lagt kapp á að hafa innan sinna vébanda gott og vel menntað starfsfólk. Hjá fyrirtækinu starfa um þessar mundir 40 manns.

Stjórnarformaður Málningar hf er Valdimar Bergstað og framkvæmdastjóri er Baldvin Valdimarsson.